Flugumyri.com » Heim » Hrossaræktarbú » Ræktunarmarkmið


Ræktunarmarkmið

Flugumýrarhrossin, gjarnan bleikálótt eða móálótt, eru löngu landsþekkt en langþekktastur er þó stóðhesturinn Ófeigur 882 frá Flugumýri sem fæddur var árið 1974. Ófeigur komst til æðstu metorða, hlaut heiðursverðlaun sem kynbótahestur og kemur víða við sögu í íslenskri hrossarækt í dag. Hrossarækt þeirra Eyrúnar Önnu og Páls Bjarka á Flugumýri II byggir að stórum hluta á þessum grunni sem lagður var fyrir um aldarfjórðungi en fleira kemur til. Gæðingahryssan Kolskör frá Gunnarsholti er máttarstólpi í hrossarækt þeirra og sonur hennar stóðhesturinn Kormákur frá Flugumýri er nú að skipa sér í röð athyglisverðustu stóðhesta landsins í dag. Hann hefur nú þegar öðlast 1. verðlaun fyrir afkvæmi.
Afkvæmi Kormáks hafa vakið athygli undanfarið, þar má nefna glæsihryssuna Sif frá Flugumýri en hún var hæst dæmda hryssa landsins árið 2001 með 8.05 fyrir byggingu, 8.63 fyrir hæfileika og 8.40 í aðaleinkunn.
Í Sif mætast annarsvegar stóðhesturinn Kormákur Kolskararson og hinsvegar Ófeigsdóttirin Sandra frá Flugumýri, það má því með sanni segja að þar mætist gamli og nýi tíminn í hrossarækt á Flugumýri.

Á Flugumýri er takmarkið að rækta gæðahross með gott geðslag, flugrúm á gangi og með mikla útgeislun. Þó ræktunarstarfið sé ekki langt í árum talið þá hefur náðst frábær árangur og má það þakka góðum grunni.