Flugumyri.com » Heim » Íslenskar hestasýningar


Vertu velkomin(n) heim að Flugumýri til að sjá og upplifa íslenska hestinn í okkar vinsælu reiðsýningu "Stefnumót við íslenska hestinn" sem er hvoru tveggja fræðandi og skemmtileg upplifun og veitir innsýn í eitt merkasta hestakyn heims sem hefur verið samofið okkar menningu og þjóð í gegnum aldirnar. Þú kynnist fjölhæfni hans og kostum í sínu náttúrulega umhverfi en íslenski gæðingurinn býr yfir fimm gangtegundum sem eru fetgangur, brokk, stökk, tölt og skeið.

Í dag skipar hesturinn veglegan sess í tómstundalífi fólks og í kringum hann hefur skapast fjölbreytt menning og sífellt fleiri kjósa að byggja lífsviðurværi sitt á honum eins og þú munt sjá og kynnast á hrossaræktarbúinu Flugumýri. Fjölskyldan á bænum kynnir og sýnir hestinn í reið og þá gefst einnig tækifæri til að fá aðeins  innsýn í daglegt líf stórfjölskyldu á íslensku sveitaheimili.
Íslensk hestasýning og heimsókn á hrossaræktarbúið tekur um 1-11/2 klst. allt eftir tíma hvers hóps fyrir sig,
Þá er boðið uppá kaffi/te og heimabakað meðlæti fyrir hópa sem þess óska.

Gestum gefst kostur á að fara á hestbak og kynnast íslenska hestinum í reið (gegn aukagjaldi).
Fjölskyldan á Flugumýri hefur unnið til fjölda verðlauna, bæði sem ræktendur og sýnendur á íslenska hestinum, og leggur mikinn metnað í að gera heimsóknina sem eftirminnilegasta.